Um Hamragil

Hamragil er stórt og fallegt hús, -í raun stórfallegt! Húsið er einlyft, 140 fm og með stóru alrými, með rúmum fyrir 10 manns í sex svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum, bæði með salerni og sturtu.
Hamragil er einstaklega vel staðsett uppi í austanverðri Vaðlaheiðarbrekkunni þar sem dalurinn opnast, bæði með útsýn yfir Fnjóskána og niður eftir öllum dalnum, einnig inn á Ljósavatnsskarðið.
Nærumhverfið er ekki síðra, sýnisskógur af bestu gerð, berjamóar, gil með brú yfir lækinn svo og heiti potturinn grafinn að hluta til inn í brekkubarðið.
Staðsetningin er einnig frábær hvað varðar dagsferðir út frá bústaðnum, bæði austur til Mývatnssvæðisins og Vatnajökulsþjóðgarðs, en eins vestur úr til Tröllaskaga, eða í suður,  upp á hálendið .
Ef ekið er um Vaðlaheiðargöngin er Akureyri og flugvöllurinn í innan við 15 km og 15 mín akstursfjarlægð, þannig að hvort sem sótt er í tónlistar-, skíða- eða kaffimenninguna er þetta allt handan við hornið. 

Með því að nýta sér Roof ’n Route kerfi okkar og bóka fleiri frístundahús samtímis má framlengja ferðalagið vestur á Þverá á Barðaströnd, suður í Brekku/Langholt á Hvalfjarðarströnd og (yfir Kjöl eða Sprengisand) í Holt í Biskustungum. Nú eða þá eða austur í Borgarbrekku í Lóni.

Ef fleiri en 6 manns eru bókaðir kemur  €33,- aukagjald fyrir hvern einstakling (að ungabörnum frátöldum).

Aðstaða og Búnaður
  • Uppbúin rúm: 3 svefnherbergi: 1 x 2 pers. (tvíbreitt), 2 x 2 pers. (twin) , 1 x 2 pers. (svefnsófi).
  • 2 baðherbergi með salerni og sturtu
  • Rými fyrir 10 pers.
  • Mæting: Eftir 16:00
  • Brottför: Fyrir 12:00  
  • Næsta matvöruverslun: Akureyri, 15 (göngin) eða 30 km
  • Heimilistæki: Uppþvottavél, örbylgja, kæliskápur m. frysti, brauðrist, vöfflujárn, kaffivél f. malað kaffi, þvottavél, hljómtæki m. Bluetooth, sjónvarp o.fl.
  • Aðbúnaður:  stór verönd móti suðri, gasgrill. Heitur pottur m. sjálfvirkri stýringu.
Gallerí

Áhugaverðir staðir

Goðafoss

Godafoss waterfall
Goðafoss er í nágrenni við sumarbústaðinn Hamragil

Goðafoss liggur þétt við þjóðveginn milli Akureyrar og Mývatns.


Mývatn

Lake Myvatn
Mývatn er náttúruperla norðursins

Mývatnssvæðið er einstök jarðfræði-, dýralífs- og mannlífs paradís. Fuglalíf, reykti fiskurinn, Skútustaðagígar, Krafla, Námaskarð, Grjótagjá, Jarðböðin, Dimmuborgir, Hverfjall, Gamli bærinn í Reykjahlíð….  Allt innan klukkustundarakturs frá Hamragili.


Dettifoss

Dettifoss waterfall
Dettifoss er ein aðalgersemin á „Demantshringnum“

Þegar eknir eru um 30 km eftir hringveginum austur frá Mývatni er komið að vegi F862, sem liggur til norðurs niður með Jökulsá á Fjöllum vestanverðri, niður að Dettifossi, Vesturdal og Ásbyrgi. Yfirleitt er vetraropnun niður að Dettifossi.


Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss waterfall
Aldeyjarfoss

Ef eknir eru uþb. 40 km inn Bárðardalinn, í endann á Sprengisandsleið, er komið að Aldeyjarfossi. Þetta er einhver fegursti foss landsins. Leiðin er fær öllum bílum að sumri, en að vetri til getur um klukkustundarganga frá Mýri verið nauðsynleg til að komast að fossinum.


Vaðlaheiði

Ef farið er við bæinn Skóga inn á gamla veginn yfir Vaðlaheiði, sem á að vera fær öllum bílum, fæst glimrandi gott útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörð. Í raun er þetta líka upplögð hjólaleið, sem kemur Eyjafjarðarmegin niður við Varðgjá.


Flateyjardalur og Fjörður

Frá Hamragili er farið yfir brúna á Fnjóská og beygt til vinstri inn á veg 835. Ekið sem leið liggur þar til beygt er til hægri inn á Flateyjardalsleið, nr. F899. Einstakt að sjá svæðið út við ysta haf opnast fyrir fótum sér þegar komið á leiðarenda, með Flatey á Skjálfanda úti fyrir.

Vegurinn út í Fjörður er annar svona sumarslóði fyrir jeppa. Þá er ekið fram hjá Flateyjardalsafleggjaranum þar til komið er að vegi 839 út í Hvalvatnsfjörð og Þorgeirsfjörð.


Laugarfell

Með góðum fjórhjóladrifnum bíl má ná alla leið inn í Laugafell, á hálendinu norðan Hofsjökuls. Farið upp úr Eyjafirðinum vestanverðum og sem leið ir liggja til þessa merkilega bað- og náttstaðar. Síðan er haldið áfram hjá Sandbúðum austur á Sprengisandsleið (eða „Forsetaveginn“ að Fjórðungsöldu - lengra) og síðan norður og niður í Bárðardal og til baka. Eðlilega má snúa hringnum við ef örugglega er fært niður í Eyjafjörðinn.


Leirhverirnir á Þeistareykjum

Þeistareykir
Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum

Leirhverirnir á Þeistareykjum eru með fallegri hverasvæðum landsins, jafnvel þótt jarðgufuvirkjun hafi verið byggð í næsta nágrenni. Ekið annað hvort frá Húsavík eða út af vegi 87 (Kísilveginum) og inn á slóða sem leiðir mann inn á Þeistareykjasvæðið.


Fiskveiðibæirnir Dalvík, Ólafsfjörður og Siglufjörður.

Siglufjörður fishing town
Siglufjörður

Að fara fyrir Tröllaskagann er mjög góð dagsupplifun. Allir þessir fiskveiðbæir eru fallegir og áhugaverðir, og söfnin á Siglufirði eru vel þess virði að heimsækja. Haldið er áfram um Fljótin og komið til baka um Öxnadalsheiði.


Nánari ferðaupplýsingar á https://www.ferdalag.ishttps://www.vedur.is og https://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/faerd-og-vedur/

Afþreying
  • Elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins, sem mikið er látið af, whales.is er í Hauganesi vestan Eyjafjarðar. Einnig má fara í hvalaskoðunarferðir út frá Akureyri með elding.is, og tvö fyrirtæki starfa á Húsavík: northsailing.is og gentlegiants.is
  • Baðaðstaðan geosea.is rétt norðan Húsavíkur er einstök, og ennfremur taka Jarðböðin við Mývatn vel að móti manni: myvatnnaturebaths.is
  • Þeir sem kjósa annars konar baðupplifun -bað með bragði- ættu að prófa bjórböðin á Árskógssandi, vestan við Eyjafjörðinn: https://www.bjorbodin.is/is
  • Pólarhestar, rétt sunnan Grenivíkur, bjóða reiðtúra fyrir börn jafnt sem fullorðna: polarhestar.is
  • Ekkert kemur í stað skemmtilegra gönguferða. Með þvi að aka nokkra kílómetra frá Hamragili upp að Skógum við enda Vaðlaheiðarganganna má fara í skemmtilegan göngutúr með því að hafa gömlu, fallegu Fnjóskárbrúna í miðpunkti. Upplagt er að ganga í Vaglaskóginum upp með ánni að austanverðu og fara aftur yfir á syðri brúnni. Skógræktarstöðina að Vöglum má skoða í leiðinni. Einnig mælir ekkert á móti því að fara í fjallgöngu upp frá Vöglum og klífa Hálshnjúkinn.
Matur
  • Strikið á Akureyri kryddar matinn með góðri útsýn á Eyjafjörðinn af fjórðu hæð: strikid.is
  • Hinn háklassíski matsölustaður, bautinn.is, er enn á sínum stað!
  • Einfaldur og fljótfenginn matur, eins og t.d. góðar pizzur, fæst á bryggjan.is við Strandgötu. Svipað er upp á teningnum með  akureyribackpackers.com í göngugötunni, sem bjóða einfaldan mat á hagstæðu verði.
  • Í göngugötunni er einnig kaffihúsið Bláa kannan. Eiginlega er það „möst“ að líta þangað inn í Akureyrarferð, afar gott andrúmsloft og kaffi + kökur par exellence: https://www.facebook.com/blaakannan/
  • Örlítið öðruvísi kaffihús -og reyndar mathús líka- er rekið á bænum Garði í austari hluta Eyjafjarðardals, kaffiku.is. Úr viðbyggingu við fjósið er gaman að fylgjast með lífi og starfi kúnna á bænum, meðan kaffigestir fá sér spenvolga mjólk út í kaffið.
  • Á Siglufirði er mikið um að vera í veitingageiranum. Þar er kaffihúsið kaffiraudka.is og mathúsið hannesboy.is í lifandi litum niðri við höfn.  Lengra inni í bænum er Café Fríða sem sérhæfir sig í belgísku, heitu súkkulaði: Frida.is
  • Á Húsavík nýtur maður góðra fiskrétta í þægilegu umhverfi bjálkhússins sem hýsir veitingastaðinn Gamla Bauk, niðri við hvalaskoðunarbryggjuna. Inni í bænum er alhliða veitinghús sem fær afbragðs dóma: https://www.facebook.com/naustid/
  • Veitingastaðurinn Gamli bærinn við hótel Reynihlíð býður einfaldan matseðil í skemmtilegu og sögulegu andrúmslofti gamla Reynihlíðarbæjarins: https://www.facebook.com/gamlibistro/. Við austari hluta vatnsins er einnig hið þekkta Vogafjós, þar sem matargestir borða í kappi við kýrnar: vogafjosfarmresort.is.
Menning
  • Tónleikastaðurinn Græni hatturinn á Akureyri, inni í sundi við göngugötuna, er á pari við það sem best gerist á Reykjavíkursvæðinu  varðandi flutning dægurtónlistar. Í eðlilegu árferði er þar boðið upp á tónleika með mörgum af bestu hljómsveitum landsins -og ýmissa annarra landa. Gott er að fletta upp því sem er í gangi á Græna hattinum áður en rennt er norður: graenihatturinn.is
  • Menningarhúsið Hof á Akureyri stendur fyllilega undir nafni, auk þess að vera mögnuð bygging. Hér eru títt haldnir tónleikar af öllu tagi og margvíslegar aðrar menningaruppákomur, auk þess sem upplýsingamiðstöð ferðamála er hér til húsa. Þó það væri ekki nema byggingarinnar vegna, væri upplagt að líta þar inn: mak.is/en/mak/hof
  • Leikfélag Akureyrar ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og er stöðugt að koma á óvart: https://www.mak.is/is/leikfelag-akureyrar/um-la
  • Það er 111 þrepa virði að ganga upp töppurnar að Akureyrarkirkju, teiknaðri af Guðjóni Samúelssyni, og skoða m.a. steindu gluggana að baki altarinu. Þeir eru upprunnir í dómkirkjunni í Coventry á Englandi en voru keyptir og fluttir til landsins á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
  • Frá kirkjunni er tiltölulega stutt ganga til Lystigarðsins, sem sagður er hafa eintak af hverri þeirri plöntu sem fundist hefur hér á landi: http://www.lystigardur.akureyri.is/default.aspx?modID=1&id=1
  • Flugsafnið og mótorhjólasafnið eru í námunda við flugvöllinn. Sjá flugsafn.is og motorhjolasafn.is
  • Um það bið 15 km norðan við frístundahúsið Hamragil, sunnan Grenivíkur, er bærinn Laufás. Þessi fallegi torfbær höfðar  áreiðanlega til fleiri en sérstakra áhugamanna um burstabæjarbyggingarstílinn: https://www.minjasafnid.is/is/laufas
  • Á Húsavík er merkilegt hvalasafn: hvalasafn.is. Þar er einnig mjög áhugavert könnuðasafn, sem m.a. gerir fyrstu tunglförunum og Öskjuferð þeirra góð skil: https://www.explorationmuseum.com
  • Við Mývatn er mjög vel uppbyggt Fuglasafn Sigurgeirs í Ytri-Neslöndum. Þar má sjá svo til alla íslenska varpfugla: https://www.fuglasafn.is
  • Á Siglufirði má heimsækja nýlega stofnað Þjóðlagasetur tónskáldsins Sr. Bjarna Þorsteinssonar (sem m.a. samdi lagið við „Blessuð sértu sveitin mín): http://www.siglohotel.is/is/afthreying/sofn-og-gallery/thjodlagasetur-sr-bjarna-thorsteinssonar/39
  • Og síðast en ekki síst státar sig Sigló af einu áhugaverðasta og líflegasta safni landsins, Síldarminjasafninu: sild.is

Hamragil - Beint á bókunarsíðu

Lágmarks gistitími 5 nætur

Afsláttur: 7 nætur 10%, 14 nætur 20%.

350 € pr nótt (fyrir allt að 6 manns) + 280 € bókunargjald


Searching Availability...

Google Maps

Mit dem Laden der Karte akzeptieren Sie die Datenschutzerklärung von Google.
Mehr erfahren

Karte laden

Ferðist um landið og njótið þess að gista í og geta bókað frístundahús Nordic Lodges á einfaldan hátt í Roof and Route -kerfinu. Þetta eru húsin okkar:

Holt

Á miðjum Gullna hringum situr kósí húsið okkar Holt, rétt sunnan Reykholts í Bisk. Hér verður vart þverfótað fyrir áhugaverðum stöðum og afþreyingu. Holt er Í rúmlega einnar stundar akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.

>>> Sjá Holt

Borgarbrekka

Borgarbrekka í Lóni er fallegt tveggja hæða, stórt og rúmgott hús. Út frá því má fara í ótaldar upplifunarferðir um eitthvert fegursta svæði landsins, allt frá Eystra Horni til hins Vestra, svo og inni á Lónsöræfum. Austur- og suðurhlutar Vatnajökuls standa síðan að krýningu þessa augnakonfekts.

>>> Sjá Borgarbrekku

Brekka

Ferienhaus Island Brekka lodge Iceland

Þetta nýja, bráðfallega hús veitir úrvals sýn á allan Hvalfjörðinn, frá Botnssúlum og út í hafsauga. Stutt er í frábæra gönguleið inn á Botnsdal og upp með fossinum Glym. Brekka er í um 50 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu

>>> Sjá Brekku

Langholt

Þetta nýja, bráðfallega hús veitir úrvals sýn á allan Hvalfjörðinn, frá Botnssúlum og út í hafsauga. Stutt er í frábæra gönguleið inn á Botnsdal og upp með fossinum Glym. Langholt er í um 50 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu 

>>> Sjá Langholt

Þverá

Nordic Lodges Island Ferienhaus Tvera

Þessi rúmgóði og hlýlegi sumarbústaður er umvafinn ósnortinni náttúru Barðastrandarinnar. Útsýnin á fjörðinn, eyjarnar og ströndina er einstök!

>>> Sjá Þverá